Úrræði vegna Covid-19

Lánamál

Eins og fram hefur komið mun Festa lífeyrissjóður koma til móts við þá sem tekið hafa lán hjá sjóðnum og sjá fram á erfiðleika við að standa í skilum vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar og verður svigrúm veitt eftir því sem lög og reglur heimila.

Vakin er athygli á því skilyrði fyrir því að umsókn um greiðslufrest sé samþykkt af hálfu sjóðsins að vanskil láns/lána sé ekki eldri en m.v. 1. febrúar 2020.

Ath. að sjóðfélagar sem sjá fram á að geta greitt af lánum sínum eru hvattir til að gera það enda verður greiðslum aðeins frestað en þær falla ekki niður.

Hægt að sækja um greiðslufrest lána á eftirfarandi hátt: 

Vakin er athygli á að kostnaður vegna skjalagerðar er kr. 10.000 vegna þessarar umsóknar og þarf að greiðast inn á bankareikning Festu lífeyrissjóðs: (0121-26-2002 kt. 571171-0239). Umsækjandi þarf að senda kvittun vegna greiðslu kostnaðar við skjalagerð á netfangið lan@festa.is og tilgreina lánanúmer í tilvísun.

Umsækjanda ber að sjá um þinglýsingu skjala.

Landsbankinn sér um skjalagerð fyrir Festu lífeyrissjóð skv. samningi þ.a.l.

Lánadeild Festu lífeyrissjóðs veitir allar frekari upplýsingar. Netfangið er lan@festa.is.

Sjóðfélagar eru beðnir um að sýna því skilning að afgreiðsla mála hjá lánadeild sjóðsins tekur lengri tíma en venjulega vegna mikils álags.

Útgreiðsla séreignarsparnaðar

Festa lífeyrissjóður mun opna fyrir umsóknir um úttektir á séreignarsparnaði í samræmi við ný samþykkta breytingu þess efnis á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.

Vakin er athygli á eftirfarandi:

  • Rétthafa séreignarsparnaðar er heimilt á tímabilinu 1. apríl 2020 til 1. janúar 2021 að sækja um útgreiðslu séreignarsparnaðar, sem myndast hefur af viðbótariðgjaldi.
  • Hámarksúttekt fyrir einstakling verði 12 milljónir króna. Skal sú fjárhæð greiðast út með jöfnum mánaðarlegum greiðslum, að frádreginni staðgreiðslu, á 15 mánaða tímabili. Útgreiðslutími styttist hlutfallslega ef um lægri fjárhæð en 12 milljónir kr. er að ræða.
  • Mánaðarleg greiðsla getur numið allt að 800 þúsund krónum á mánuði.
  • Heimildin nær ekki til tilgreindrar séreignar.
  • Ef rétthafi á séreignarsparnað hjá fleiri en einum vörsluaðila skal hann gera grein fyrir því í umsókn sinni.

Innheimta vanskila iðgjalda

Lífeyrissjóðum er heimilt, á grundvelli nýsamþykktra laga nr. 20/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, að miða við aðra vexti en dráttarvexti ef kemur til vanskila þegar um er að ræða lágmarksiðgjald. Er stjórn lífeyrissjóðs þannig heimilt að setja reglur um innheimtu vanskilavaxta sem eru lægri en dráttarvextir, vegna iðgjalda allt að 15,5% (lágmarksiðgjald) sem eru komin fram yfir eindaga. Heimildin gildir ekki um innheimtu viðbótariðgjalds (frjáls séreignasparnaður) enda gilda um þá innheimtu önnur sjónarmið. Heimildin tekur til iðgjaldagreiðslutímabils frá 1. janúar 2020 til 1. janúar 2021. Er það á hendi stjórnar hvers sjóðs að meta hvort og að hvaða marki þessi heimild verði nýtt.

Hefur stjórn Festu lífeyrissjóð samþykkt að lækka vexti á vanskil iðgjaldakrafna úr dráttarvöxtum (nú 9,5%) í 6,0% vegna iðgjaldagreiðslutímabilsins frá 1. janúar 2020 og þar til annað verður ákveðið. Innheimtu iðgjaldakrafna hjá lífeyrissjóðnum skal þó ávallt hagað þannig að lögum um lífeyrissjóði sé hlýtt í hvívetna.

Hafa stéttarfélögin sem sjóðurinn innheimtir iðgjöld fyrir, auk VIRK starfsendurhæfingarsjóðs, einnig samþykkt að miða við aðra vexti en dráttarvexti ef kemur til vanskila og miða við 6,0% vegna iðgjaldagreiðslutímabilsins frá 1. janúar 2020 og þar til annað verður ákveðið.