Fréttir

Tilgreind séreign - Hækkun iðgjalds 1. júlí

07.07.2017

Iðgjald launagreiðenda í lífeyrissjóði fólks á almennum vinnumarkaði hækkar um 1,5% 1. júlí 2017 og verður þá 10% en iðgjald launþega verður óbreytt áfram 4% (samtals 14% lágmarksiðgjald). Tilkynningar þ.a.l. hafa verið sendar launagreiðendum í bréfpósti.

Er þetta í samræmi við ákvæði kjarasamninga ASÍ og SA frá 21. janúar 2016. Samhliða gefst sjóðfélögum sem þess óska tækifæri til að ráðstafa að hluta eða öllu leyti því iðgjaldi sem er umfram 12% (nú 2%) í tilgreinda séreign. Tilkynningar þ.a.l. munu berast til sjóðfélaga í bréfpósti á allra næstu dögum.

Tilgreind séreign er önnur tegund séreignarsparnaðar en áður hefur boðist og um hana gilda aðrar reglur. Í 22. gr. samþykkta Festu lífeyrissjóðs er að finna ákvæði sem gilda um tilgreinda séreign.

  • Mikilvægt er að sjóðfélagar geri sér grein fyrir að réttindi í samtryggingardeild geta falið í sér verðmæt tryggingaréttindi.
  • Með ráðstöfun iðgjalds í tilgreinda séreign ávinnst ekki, hvað þau iðgjöld snertir, réttur til ævilangs ellilífeyris, né örorku- og makalífeyris með framreikningi heldur byggir sjóðfélagi upp sjóð sem er séreign viðkomandi.
  • Sjóðfélagi þarf að taka upplýsta ákvörðun um ráðstöfun iðgjalds og tilkynna sínum  lífeyrissjóði um ráðstöfun iðgjaldsins (sjá tengil á forsíðu www.festa.is).
  • Sjóðfélagi má hvenær sem er breyta því hvernig hann ráðstafar iðgjaldi umfram 12%.
  • Hægt verður að byrja að taka út tilgreindan séreignarsparnað frá 62 ára aldri og dreifist þá útborgun á þau ár sem vantar í 67 ára aldur.
  • Tilgreindan séreignarsparnað verður ekki unnt að nota til að safna skattfrjálst til húsnæðiskaupa eða til að greiða skattfrjálst niður húsnæðislán.
  • Tilgreind séreign erfist

Á vefsíðu Festu, www.festa.is, er eyðublað sem sjóðfélagi þarf að fylla út vilji hann ráðstafa iðgjaldi umfram 12% í tilgreinda séreign. Það er hægt að gera annars vegar með rafrænum hætti með rafrænni undirskrift eða með því að fylla út eyðublaðið, prenta út, undirrita og koma frumriti þess til sjóðsins. Í eyðublaðinu er að finna upplýsingar um tilgreindu séreignina og hvaða þættir það eru sem sjóðfélagi þarf að líta til áður en hann tekur ákvörðun um hvernig hann vill ráðstafa viðbótariðgjaldinu.

Allar frekari upplýsingar veitir starfsfólk Festu lífeyrissjóðs í síma 420-2100. Einnig er hægt að senda fyrirspurnir til sjóðsins á festa@festa.is