Fréttir

Álitsgerð um stjórnskipulegt mat á slitum ÍL-sjóðs

21.02.2024

Festa lífeyrissjóður, ásamt fleiri lífeyrissjóðum, fór þess á leit við Róbert Spanó, lögmann og eiganda hjá Gibson, Dunn & Crutcher LLP að hann tæki afstöðu til álitaefna sem snúa að stjórnskipulegu gildi þeirra tillagna sem fram komu í drögum að frumvarpi til laga um slit ógjaldfærra opinberra aðila, sem kynnt voru í samráðsgátt stjórnvalda 12. október 2023, að því marki sem þeim yrði beitt til slita á ÍL-sjóði.

Niðurstöður álitsgerðarinnar eru samandregið eftirfarandi.

„Í fyrsta lagi myndu slit ÍL-sjóðs á grundvelli ákvæða frumvarpsins, hvað sem líður almennum búningi þess á ytra borði, í reynd fela í sér sértækt og íþyngjandi inngrip í samningssamband kröfuhafa og ÍL-sjóðs þar sem kröfuréttindin eru sem stendur skýr og óskilyrt. Það er því verulega hætta á því að það yrði ekki talið samrýmast stjórnarskrá að beita reglum frumvarpsins til slita á ÍL-sjóði. Þá hefði gjaldfelling skuldabréfa ÍL-sjóðs við slitin í för með sér tjón fyrir kröfuhafa. Bótaregla 7. gr. frumvarpsins breytir ekki þeirri niðurstöðu að slit ÍL-sjóðs fæli í sér eignarnám eða bótaskylda skerðingu eignaréttar í skilningi 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar á þeim kröfuréttindum sem leiða af þeim skuldabréfum sem sjóðurinn er útgefandi að. Ef ekki yrði talið að sértækt eðli inngripsins bryti sem slíkt í bága við stjórnarskrá yrði því samt sem áður að meta hvort slit ÍL-sjóðs, á grundvelli ákvæða frumvarpsins, fullnægði þeim form- og efniskröfum sem leiða af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka við MSE um (1) fullnægjandi lagafyrirmæli, (2) um almenningsþörf og að (3) fullt verð kæmi fyrir það tjón sem kröfuhafar yrðu fyrir vegna slitanna.

Í öðru lagi leikur hætta á því að hin óvenjulega útfærsla á uppgjöri bóta sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu myndi við slit á ÍL-sjóði ekki fullnægja þeim kröfum sem leiða af 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka við MSE um skýrleika lagaheimilda og meðalhófsreglu. Áskilnaður frumvarpsins um virkar aðgerðir kröfuhafa til að takmarka tjón sitt kann í tilviki kröfuhafa ÍL-sjóðs að skapa tiltekna óvissu um val á þeim aðgerðum og fjárfestingarkostum sem þeim eru tiltækir svo að uppfyllt sé það skilyrði laganna. Með þessu fyrirkomulagi er auk þess hætt við því að ekki verði gætt að því að viðhalda því jafnvægi á milli einkahagsmuna og almannahagsmuna sem liggur til grundvallar þeirri eignaréttarvernd sem tryggð er með ákvæðum stjórnarskrár og MSE.

Í þriðja lagi er vandséð að þau markmið sem að er stefnt með frumvarpinu fullnægi þeim kröfum sem leiða af 72. gr. stjórnarskrárinnar um almenningsþörf komi til slita á ÍL-sjóði.“

Álitsgerð Róberts má lesa í heild sinni með því að smella hér.

Festa lífeyrissjóður.