Fréttir

Ársuppgjör Festu lífeyrissjóðs 2019

01.04.2020

Stjórn Festu lífeyrissjóðs hefur samþykkt ársreikning sjóðsins fyrir árið 2019. Til upplýsinga fyrir sjóðfélaga verða hér birtar helstu niðurstöðutölur ársreikningsins. Ársreikningurinn mun verða birtur í heild sinni á heimasíðu sjóðsins að loknum ársfundi hans sem fyrirhugað er að halda 19. maí nk.

Sjóðfélagar sem greiddu iðgjöld á árinu 2019 voru samtals 19.154. Fjöldi sjóðfélaga með réttindi í árslok 2019 var 99.082. Launagreiðendur voru 2.550.

Iðgjöld til sjóðsins námu tæplega 11 milljörðum króna og hækkuðu um 5,1% frá árinu 2018.

Lífeyrisgreiðslur á árinu námu tæplega 4,2 milljörðum króna og hækkuðu um 10,1% frá fyrra ári. Heildarfjöldi lífeyrisþega var 10.083.

Heildareignir sjóðsins í árslok 2019 voru samtals tæplega 176,6 milljarðar króna, hækkuðu um 18,6% frá fyrra ári eða tæplega 27,7 milljarða króna. Eign samtryggingardeildar var 175,9 milljarðar króna og séreignardeildar 0,7 milljarðar króna.

Hrein nafnávöxtun samtryggingardeildar sjóðsins var 13,2%, hrein raunávöxtun var 10,2%.

Hrein eign séreignardeilda í árslok 2019 var 705 milljónir króna og hafði hækkað um 199 milljónir króna frá fyrra ári. Hrein nafnávöxtun sparnaðarleiðar 1, var 6,3%, hrein  raunávöxtun var 3,6%. Hrein nafnávöxtun sparnaðarleiðar 2, var 12,6%, hrein raunávöxtun var 9,7%

Tryggingafræðileg staða samtryggingardeildar var þannig að eignir sjóðsins voru 0,5% lægri en skuldbindingar í árslok 2019. Í árslok 2018 var staðan neikvæð um 1,3% og hefur því batnað lítillega á milli ára.

Eins og áður sagði er fyrirhugað að halda ársfund sjóðsins 19. maí nk. Endanleg ákvörðun liggur þó ekki fyrir um hvenær fundurinn verður haldinn, enda er það erfitt við núverandi aðstæður í samfélaginu. Frekari upplýsingar verða birtar á heimasíðu sjóðsins um leið og þær liggja fyrir.
Dagskrá fundarins verður auglýst á heimasíðu sjóðsins og í dagblöðum.