Fréttir

Í tilefni af gagnsæistilkynningu

24.01.2022

Vísað er í gagnsæistilkynningu Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, sem birt er 24.janúar á vefsíðu eftirlitsins. Þar kemur fram að eign séreignardeildar Festu (Sparnaðarleiðar 1) í tilteknum verðbréfasjóði hafi farið yfir 20% lögbundið hámark í sama útgefanda sem hlutfall af heildareignum á þriðja ársfjórðungi 2021, sbr. 3. mgr. 39. gr. b laga nr. 129/1997. Jafnframt að Festa lífeyrissjóður hafi ekki tilkynnt brotið tafarlaust til Fjármálaeftirlitsins, sbr. 37. gr. sömu laga.

Frávikið nam um 3,8 milljónum króna og var ekki til þess fallið að skerða öryggi lífeyrisréttinda sjóðfélaga. Frávikið snéri að skuldabréfasjóði með vel dreifðu eignasafni. Skuldabréfasjóðurinn er auðseljanlegur, með daglegt gengi. Festa lífeyrissjóður brást hratt við um leið og frávikið varð ljóst, seldi fyrir 3,8 milljónir í viðkomandi sjóði og fór undir lögmælt hámark samdægurs. Skv. 37. gr. laga um lífeyrissjóði skal ná lögmæltu hámarki í síðasta lagi innan þriggja mánaða.

Samhliða þessu fór sjóðurinn yfir virkni í rafrænu eftirlitskerfi sínu. Í ljós kom ágalli sem gerði það að verkum að könnun á fylgni við lögbundið viðmið um hámarkshlutföll, sbr. 3. mgr. 39. gr. b. ofangreindra laga, virkaði ekki sem skyldi gagnvart Sparnaðarleið 1, þannig að kerfið tilkynnti ekki að farið hafi verið umfram hámarkshlutfall eignar í tilteknum verðbréfasjóði. Unnið var að lagfæringu á eftirlitskerfi sjóðsins samdægurs, sem leysti úr þessum ágalla. Ennfremur hefur sjóðurinn skerpt á ferli er varðar framkvæmd prófana á eftirlitskerfinu.

Að mati sjóðsins endurspeglar þetta atvik ekki heildarvirkni rafræns eftirlitskerfis sjóðsins með lögbundnum heimildum til fjárfestinga.