Fréttir

SAMTÖL LÍFEYRISSJÓÐA VIÐ RÍKIÐ ENGU SKILAÐ

28.02.2023

Fundur tuttugu lífeyrissjóða, stærstu eigenda skuldabréfa ÍL-sjóðs, telur að óbreyttu ekki grundvöll fyrir samningaviðræðum við fjármálaráðuneytið um uppgjör skuldbindinga sjóðsins. Fulltrúar ráðuneytisins hafa ekki komið til móts við kröfur lífeyrissjóðanna um fullar efndir af hálfu íslenska ríkisins í umleitunum þess um mögulegt uppgjör.

 

Íslenska ríkið ber ótakmarkaða ábyrgð á öllum skuldbindingum ÍL-sjóðs. Áætlun fjármálaráðherra um slitameðferð og uppgjör á skuldbindingum sjóðsins án tillits til vaxtagreiðslna í framtíðinni felur í sér skerðingu eignarréttinda sem brýtur í bága við ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu. Um það liggja fyrir ítarlega rökstudd lögfræðiálit LOGOS lögmannsþjónustu og Róberts Spanó, fyrrverandi forseta Mannréttindadómstóls Evrópu. Hugmyndir fjármálaráðherra um uppgjör sem ekki felur í sér fullar efndir af hálfu íslenska ríkisins eru því óásættanlegar.

 

Svör fjármálaráðherra á Alþingi um málið í síðustu viku koma á óvart hvað varðar ummæli um að ekki sé verið að óska eftir samkomulagi um skerðingu eigna. Boðaðar ráðstafanir í tengslum við slit ÍL-sjóðs, sem miða að því að lækka verulega fjárhagslegar skuldbindingar íslenska ríkisins með lagasetningu náist ekki samningar, leiða að óbreyttu til tugmilljarða króna tjóns lífeyrissjóðanna og þar með almennings í landinu í formi tapaðra lífeyrisréttinda. Við blasir að látið yrði reyna á allar slíkar aðgerðir fyrir dómstólum.

 

Lífeyrissjóðirnir hafa ríkum lögbundnum skyldum að gegna gagnvart sínum umbjóðendum, sjóðfélögum. Þessar skyldur útiloka gerð samkomulags af því tagi sem felst í uppleggi fjármálaráðuneytisins. Á meðan ekki er komið til móts við grundvallarkröfur lífeyrissjóðanna um fullar efndir þjóna samningaviðræður við fjármálaráðuneytið því ekki tilgangi. Um það er full samstaða meðal sjóðanna.

 

Nánari upplýsingar veitir:

Arne Vagn Olsen, forstöðumaður eignastýringar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, arne.vagn.olsen@live.is / sími 580 4000