Fréttir

Slit og uppgjör ÍL-sjóðs – athugasemdir við áform um lagasetningu

12.05.2023

Áform fjármála- og efnahagsráðherra um lagasetningu er varðar slit og uppgjör á ÍL-sjóði byggja á ófullnægjandi greiningu á lagalegum og fjárhagslegum þáttum og fela í sér tilraun til að sniðganga fjárhagslegar skuldbindingar ríkisins. Fyrirhuguð löggjöf fæli í sér eignarnám, væri andstæð stjórnarskrá og til þess fallin að baka íslenska ríkinu skaðabótaskyldu sem kynni að hafa í för með sér veruleg viðbótarfjárútlát af hálfu ríkissjóðs í formi dráttarvaxta og kostnaðar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í athugasemdum tuttugu lífeyrissjóða við áformaskjal ráðherra sem birt hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda.
 
Í athugasemdum lífeyrissjóðanna tuttugu, sem LOGOS lögmannsþjónusta sendi í samráðsgáttina í dag, kemur jafnframt fram að áform fjármála- og efnahagsráðherra séu til þess fallin að kasta rýrð á orðspor íslenska ríkisins og trúverðugleika á fjármálamarkaði. Þau gætu raskað jafnvægi á fjármálamarkaði með ófyrirséðum afleiðingum fyrir eignaverð og hagsmuni fjárfesta. Áform ráðherra séu því illa ígrunduð og geti kostað ríkið umtalsverðar fjárhæðir auk langdreginna málaferla bæði innanlands og erlendis
 
Hér fyrir neðan má finna athugasemdir þær sem lífeyrissjóðirnir gera við áform ráðherra, auk yfirlits yfir helstu punkta.