Iðgjöld

Samkvæmt lögum er öllum launamönnum rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar. Atvinnurekendum er sömuleiðis rétt og skylt að halda eftir iðgjaldi af launum launþega og skila því til lífeyrissjóðsins ásamt mótframlagi sínu.

Þann 15. júní 2022 samþykkti Alþingi breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997. Meðal breytinga sem tóku gildi 1. janúar 2023, og varða sjóðfélaga beint, er að lágmarksiðgjald af launum í lífeyrissjóð hækkar úr 12% í 15,5%..

Til upplýsingar fyrir sjóðfélaga er rétt að geta þess að iðgjald til lífeyrissjóðsins frá 1. janúar 2007 var 12% af heildarlaunum, þ.e. tekjum af dagvinnu, yfirvinnu, álagsgreiðslum og orlofi. Sjóðfélagar á aldrinum 16 - 70 ára greiddu 4% af öllum launum sínum til sjóðsins og launagreiðendur 8%. Mótframlag launagreiðanda hækkaði í 8,5% frá og með 1. júlí 2016 vegna þeirra sem voru aðilar að kjarasamningi ASÍ og SA frá 21. janúar 2016. Mótframlag launagreiðanda hækkaði í 10% frá og með 1. júlí 2017 vegna þeirra sem voru aðilar að kjarasamningi ASÍ og SA frá 21. janúar 2016. Mótframlag launagreiðanda hækkaði í 11,5% frá og með 1. júlí 2018 vegna þeirra sem voru aðilar að kjarasamningi ASÍ og SA frá 21. janúar 2016.

Yfirlit yfir móttekin iðgjöld eru send sjóðfélögum tvisvar á ári og þurfa sjóðfélagar að gera athugasemdir við yfirlitið innan 60 daga frá útsendingardegi ef vanhöld sýnast á iðgjaldaskilum. Nauðsynlegt er að sjóðfélagar beri þessi yfirlit saman við launaseðla sína til að tryggja rétt skil.