Iðgjöld sjóðfélaga

Lífeyrissjóðsiðgjald sem greitt er til sjóðsins skal nema 15,5% af heildarlaunum, f.o.m. 1. júlí 2018, vegna þeirra sem eru aðilar að kjarasamningi ASÍ og SA frá 21. janúar 2016. Lífeyrir frá lífeyrissjóðum er háður þeim iðgjöldum sem berast vegna sjóðfélagans.

Iðgjald skal greiða af öllum launatekjum starfsmanna og gera upp mánaðarlega. Stofn til iðgjalds skal vera allar tegundir launa eða þóknana, fyrir störf sem skattskyld eru skv. 1. mgr. 1. tl. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Það sem telst til launa fyrir utan föst laun er t.d. yfirvinna, bónus og orlof. Af launþeganum er dregið 4% af heildarlaunum en launagreiðandi greiðir 11,5% á móti af heildarlaunum vegna þeirra sem eru aðilar að kjarasamningi ASÍ og SA frá 21. janúar 2016. Sjálfstæðir atvinnurekendur, sem ekki eru aðilar að kjarasamningi ASÍ og SA frá 21. janúar 2016 greiða bæði hlut launþega og launagreiðanda, alls 12% af eigin launum (4% hlut launþega og 8% hlut launagreiðanda).

Iðgjöld greiðist frá 16 ára aldri og iðgjaldagreiðslur falla niður þegar sjóðfélagi nær 70 ára aldri. Sjóðfélaga sem heldur áfram vinnu eftir þann tíma ber því ekki að greiða áfram til sjóðsins og með sama hætti eiga atvinnurekendur ekki að draga iðgjöld af launum sjóðfélaga, sem náð hafa 70 ára aldri.

 

Réttindi í mörgum lífeyrissjóðum

Hlutverk lífeyrissjóða er að tryggja sjóðfélaga sína, maka þeirra og börn í framtíðinni samkvæmt ákvæðum samþykkta sjóðsins vegna:

  1. Öldrunar – með greiðslu ellilífeyris.
  2. Orkutaps – með greiðslu örorku- og barnalífeyris.
  3. Andláts – með greiðslu maka- og barnalífeyris.

Þar sem aðild að lífeyrissjóði fer eftir starfi viðkomandi, hafa margir launþegar greitt í fleiri en einn lífeyrissjóð. Þegar kemur að töku lífeyris er í flestum tilfellum nægjanlegt að sækja um hjá síðasta sjóði sem greitt hefur verið til og mun sá sjóður sjá um samskipti við aðra sjóði.

 

Sjóðfélagayfirlit

Lífeyrissjóðum er skylt að senda yfirlit tvisvar á ári til sjóðfélaga um iðgjöld og réttindi og eru þau send út í mars og september eins og lög segja til um að þurfi að gera. Sjóðfélaganum ber að gera lífeyrissjóði sínum viðvart, ef um vanskil iðgjalda er að ræða, til að tryggja réttindi sín. Mikilvægt er fyrir launþegann að fylgjast með því að launagreiðandinn standi skil á iðgjaldinu svo að réttindi tengd því glatist ekki við gjaldþrot. Hafi athugasemdir frá sjóðfélaga, staðfestar með launaseðlum, ekki borist sjóðnum innan 60 daga frá dagsetningu yfirlits og sjóðnum ekki verið kunnugt um iðgjaldakröfuna, er sjóðurinn einungis ábyrgur fyrir réttindum á grundvelli iðgjalda þessara að því marki sem þau fást greidd. Ábyrgðasjóður launa tryggir iðgjöld til lífeyrissjóða 18 mánuði fyrir gjaldþroti að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

 

Við viljum verða þér að liði

Starfsemi Festu lífeyrissjóðs er margþætt og ekki hægt að gera því tæmandi skil á þessum síðum. Sjóðfélagar eru hvattir til að hafa samband við lífeyrissjóðinn ef spurningar vakna og mun starfsfólk sjóðsins með ánægju liðsinna þér.