Innheimta

Launagreiðanda ber að halda eftir iðgjöldum starfsmanna sinna og standa sjóðnum skil á þeim mánaðarlega ásamt eigin iðgjaldahluta. Gjalddagi iðgjalda hvers mánaðar er 10. næsta mánaðar. Eigi greiðsla sér ekki stað innan þess mánaðar, skal innheimta vanskilavexti þá sem Seðlabanki Íslands heimilar innlánsstofnunum hæsta að taka, frá gjalddaga til greiðsludags. Launagreiðendum og sjálfstæðum atvinnurekendum ber að tilkynna lífeyrissjóðnum ef þeim ber ekki lengur að standa skil á lífeyrisiðgjaldi þar sem þeir hafa hætt starfsemi eða launþegar þeirra hafa látið af störfum.

Forsendur innheimtuferils

Í reglugerð frá Félagsmálaráðuneytinu segir m.a. eftirfarandi um Ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota. En megintilgangur þessarar nýju reglugerðar er að skilgreina nánar hvað teljist eðlilegar innheimtutilraunir. 

"Eðlilegar innheimtutilraunir teljast því aðeins hafa farið fram að iðgjöld skv. innsendum skilagreinum, sem hafa verið í vanskilum í þrjá mánuði frá eindaga verði tekin til formlegrar innheimtu 15 daga frá útsendri lokaaðvörun lífeyrissjóðsins sem send hefur verið við lok þriggja mánaða vanskila og innheimtuaðili sjóðsins skal sýna fram á með sannanlegum hætti að málinu hafi verið fram haldið með eðlilegum hraða."

Samkvæmt þessu ákvæði þarf að vera hægt að sýna fram á að lokaaðvörun hafi verið send eigi síðar en þremur mánuðum eftir eindaga. Reglur lífeyrissjóðsins segir til um að gjalddagi iðgjalda sé 10. dagur næsta mánaðar, en eindagi síðasti dagur þess mánaðar. Þá þarf lögfræðistofan sem fer með formlega innheimtu fyrir lífeyrissjóðinn að sýna fram á að hafa sent launagreiðandanum innheimtubréf innan 15 daga frá því að lífeyrissjóðurinn sendi honum lokaaðvörun. Með þessari reglugerð eru yfirvöld að herða á skilyrðum um eðlilegar innheimtutilraunir. Lífeyrissjóðnum eru nú settar strangari reglur og þrengri tímamörk en nokkru sinni fyrr. Launagreiðendur þurfa að bregðast fljótt við þeim innheimtubréfum sem þeim eru send svo komist verði hjá lögfræðiinnheimtu og þeim kostnaði sem slíku fylgir.

Þess má geta að Alþýðusamband Íslands og Samtök Atvinnulífsins eiga hvort sinn fulltrúa í stjórn Ábyrgðasjóðs launa vegna gjaldþrota. Öllum lífeyrissjóðum er gert að starfa eftir þessum lögum