Nú andast sjóðfélagi og eiga þá börn hans og kjörbörn yngri en 18 ára rétt til barnalífeyris úr sjóðnum eins og nánar er kveðið á um í þessum kafla, enda hafi hinn látni:
- greitt iðgjöld til sjóðsins 24 af 36 síðustu mánuðum fyrir andlátið eða 6 mánuði af undanfarandi 12 eða
- notið ellilífeyris eða örorkulífeyris úr sjóðnum sem svarar til minnst 10.000 kr. á mánuði.
Við mat á því hvort framangreindum skilyrðum er fullnægt er sjóðstjórn rétt að taka mið af efnisreglu greinar 12.2. að breyttu breytanda.
Barnalífeyrir greiðist einnig með börnum sjóðfélaga, sem nýtur örorkulífeyris úr sjóðnum, enda séu þau fædd eða ættleidd fyrir orkutap eða á næstu 12 mánuðum þar á eftir. Ef örorka sjóðfélaga er metin lægri en 100% skal barnalífeyrir vera hlutfallslega lægri. Barnalífeyrir sem greiddur er vegna örorku sjóðfélaga fellur ekki niður þó að sjóðfélaginn nái ellilífeyrisaldri.
Hafi sjóðfélagi á viðmiðunartímabili greitt iðgjald að meðaltali af mjög lágum iðgjaldsstofni, kr. 50.000 eða lægra, skal lækka barnalífeyri hlutfallslega þar til hann falli niður hafi iðgjaldsstofn svarað til minna en helmings af ofangreindri viðmiðun. Með sama hætti skal lækka barnalífeyri hlutfallslega með börnum elli- eða örorkulífeyrisþega séu réttindi þeirra svo takmörkuð að lífeyrir sé lægri en kr. 20.000 á mánuði og falla greiðslur barnalífeyris niður sé elli- eða örorkulífeyrir foreldris minni en kr. 10.000 á mánuði.
Veiti fráfall sjóðfélagans börnunum jafnframt rétt til lífeyris úr öðrum lífeyrissjóði skal lífeyrir úr þessum sjóði þó bundinn því skilyrði að sjóðfélaginn hafi síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs.
Fullur barnalífeyrir sem greiddur er með barni örorkulífeyrisþega er kr. 5.500 á mánuði. Barnalífeyrir sem greiddur er með hverju barni látins sjóðfélaga er kr. 7.500 á mánuði. Fjárhæðir þessar skulu breytast í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 173,5 stig.
Fósturbörn og stjúpbörn, sem sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti, skulu eiga rétt á barnalífeyri. Skulu lífeyrisgreiðslur sjóðsins vegna slíkra barna vera hinar sömu og vera myndu, ef um börn eða kjörbörn væri að ræða. Við ættleiðingu barns með erlent ríkisfang, sem búsett er erlendis, skulu tímamörk skv. þessum kafla miðast við útgáfudag gildandi vilyrðis eða forsamþykkis dómsmálaráðuneytis í stað dagsetningar ættleiðingar-leyfis.
Barnalífeyrir greiðist framfæranda barns til 18 ára aldurs barnsins.