Ellilífeyrir

Sjóðfélagi á aldrinum 60  til 70 ára, sem á réttindi í sjóðnum skv. 10. grein, á rétt á ævilöngum ellilífeyri. Sjóðfélagi sem hefur töku ellilífeyris 67 ára gamall fær réttindi samkvæmt töflu I.

Þegar sjóðfélagi hefur töku ellilífeyris eftir 67 ára aldur hækkar upphæð ellilífeyris samkvæmt töflu I eins og segir í töflu III fyrir hvern mánuð sem líður frá 67 ára aldri þar til taka lífeyris hefst. Hækkun ellilífeyrisréttindanna miðast við það að verðmæti ellilífeyrisins til æviloka sé hið sama og hjá þeim sem hefja töku ellilífeyris 67 ára miðað við tryggingafræðilegar forsendur sjóðsins.

Þegar sjóðfélagi hefur töku ellilífeyris fyrir 67 ára aldur þá lækkar upphæð ellilífeyris samkvæmt töflu I eins og segir í töflu II fyrir hvern mánuð sem sjóðfélagann vantar upp á 67 ára aldur þegar taka lífeyris hefst. Lækkun ellilífeyrisréttindanna miðast við það að verðmæti ellilífeyrisins til æviloka sé hið sama og hjá þeim sem hefja töku ellilífeyris 67 ára miðað við tryggingafræðilegar forsendur sjóðsins.

Við töku ellilífeyris fyrir 67 ára aldur ráðstafar sjóðfélagi elli- og örorkulífeyrisréttindum sínum endanlega og á því ekki sjálfstæðan rétt til
örorkulífeyris eftir það. Hafi hann áunnið sér viðbótarrétt til ellilífeyris með iðgjaldsgreiðslum eftir að hann hóf töku lífeyris skal endurúrskurða honum ellilífeyri hafi hann misst starfsorku sem nemur 50% eða meira.

Iðgjöld sem sjóðfélagar greiða eftir 67 ára aldur veita réttindi samkvæmt töflu IV. Ellilífeyrisréttindi sem aflað er á hverju aldursári samkvæmt þessari grein koma fyrst til greiðslu fyrir fyrsta mánuð eftir næsta afmælisdag og þá aðeins samkvæmt sérstakri umsókn sjóðfélaga. Greiða skal þó ellilífeyri eigi síðar en vegna næsta mánaðar eftir 70 ára afmælisdaginn og þá án sérstakrar umsóknar. Ellilífeyrir sem aflað er skv. töflu IV hækkar
þegar töku hans er frestað fram yfir næsta afmælisdag samkvæmt því sem tilgreint er í töflunni. Réttindi veita rétt til makalífeyris í samræmi við ákvæði 13. greinar.

Ellilífeyrir er greiddur sem föst fjárhæð á mánuði til dauðadags samkvæmt uppsöfnuðum réttindum. Réttur til ellilífeyris fellur niður við andlát.

Sjóðfélagi getur ákveðið að skipta ellilífeyrisréttindum á milli sín og maka síns í samræmi við 14. grein laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, þannig:

  • að verðmæti uppsafnaðra ellilífeyrisréttinda hans skuli allt að hálfu renna til að mynda sjálfstæð ellilífeyrisréttindi fyrir maka hans eða fyrrverandi maka, og skerðast þá réttindi sjóðfélagans sem því nemur.  Þessi ákvörðun skal tekin áður en taka lífeyris hefst en þó eigi síðar en fyrir 65 ára aldur og þá háð því, að sjúkdómar eða heilsufar sjóðfélaga hafi ekki dregið úr lífslíkum.  Heildarskuldbinding lífeyrissjóðsins skal ekki aukast við þessa ákvörðun sjóðfélagans. Þessi skipting er ekki heimil nema um gagnkvæma skiptingu sé að ræða.
  • að iðgjald vegna hans, sem gengur til að mynda ellilífeyrisréttindi, skuli allt að hálfu renna til þess að mynda sjálfstæð ellilífeyrisréttindi fyrir maka hans. Við ráðstöfun iðgjalds til ellilífeyris skal litið svo á að iðgjaldsstofni sjóðfélagans hafi verið skipt milli hans og makans eins og iðgjaldinu. Örorku- og makalífeyrisréttindi sjóðfélagans taka eftir sem áður mið af óskiptum iðgjaldsstofni. Þessi skipting er ekki heimil nema um gagnkvæma skiptingu sé að ræða.