Makalífeyrir

Nú andast sjóðfélagi sem naut elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum eða greitt hafði iðgjald til hans í a.m.k. 24 mánuði á undanfarandi 36 mánuðum fyrir andlátið og a.m.k. í 6 mánuði á undanfarandi 12 mánuðum fyrir andlátið og lætur eftir sig maka, og á þá hinn eftirlifandi maki rétt á lífeyri úr sjóðnum.

Óskertur makalífeyrir skv. grein 13.6. er ætíð greiddur eftirlifandi maka í minnst 36 mánuði og síðan að hálfu í allt að 24 mánuði til viðbótar, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlátið.

Eftirlifandi maki fær þó ávallt greiddan makalífeyri þar til yngsta barn sem var á framfæri sjóðfélagans nær 18 ára aldri, enda sé það á framfæri makans.

Sé maki a.m.k. 50% öryrki skal greiddur makalífeyrir meðan sú örorka varir, enda sé eftirlifandi maki yngri en 65 ára.

Maki samkvæmt þessari grein telst sá eða sú sem við andlátið var í hjúskap með sjóðfélaga eða óvígðri sambúð, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlát sjóðfélagans. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð tveggja einstaklinga sem eiga sameiginlegt lögheimili, eru samvistum, eiga barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. tvö ár. Heimilt er að greiða makalífeyri til aðila sem hefur sannanlega annast heimili sjóðfélaga um árabil fyrir andlát hans. Réttur til makalífeyris fellur niður ef makinn gengur í hjónaband á ný, stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar, enda sé ekki kveðið á um annað í samþykktum sjóðsins.

Makalífeyrisréttindi eru hverju sinni 50% af elli- eða örorkulífeyrisréttindum sjóðfélagans, hvort sem gefur hærri rétt við fráfall. Hér er miðað við öll ellilífeyrisréttindi, sem sjóðfélaginn hefur áunnið sér og því ekki dregin frá þau réttindi, sem hann kann að hafa afsalað sér samkvæmt gr. 11.6. (um skiptingu ellilífeyrisréttinda). Veiti dauðsfallið hinum eftirlifandi maka jafnframt rétt til lífeyris úr öðrum sjóði skal hann því aðeins fá lífeyri úr þessum sjóði vegna ókomins tíma að hann hafi síðast greitt iðgjöld til hans. Áunnin réttindi makalífeyrisþega skulu hverju sinni nema áunnum réttindum við úrskurð makalífeyris að viðbættum réttindum vegna:

  • framreiknaðra réttinda í hlutfalli við hundraðshluta makalífeyris af hámarksmakalífeyri eins og hann hefur verið hverju sinni.
  • aukningar- eða skerðingarréttinda sem kann að hafa verið úthlutað eftir að taka makalífeyris hófst.
  • hafi hinn látni notið örorkulífeyris frá sjóðnum bætast einnig við réttindi sem örorkulífeyrisþeginn kann að hafa unnið sér inn eftir úrskurð örorku