
Örorkulífeyrir
Verði sjóðfélagi fyrir orkutapi, getur hann átt rétt á endurhæfingar- eða örorkulífeyri úr sjóðnum. Til þess þarf örorkan að vera metin 50% eða meira til að minnsta kosti hálfs árs. Greiðslur eru tekjutengdar og miða við tekjur árin fyrir orkutap og framreikning ef það á við.
Örorkulífeyrir er greiddur í ákveðinn tíma í samræmi við mat trúnaðarlæknis. Sé örorka ekki varanleg þarf að endurmeta hana reglulega. Ef hún er varanleg breytist örorkulífeyririnn í ævilangan lífeyri við 67 ára aldur. Örorkulífeyrir greiðist ekki fyrir fyrstu þrjá mánuðina eftir orkutap.

Réttur til örorkulífeyris
Auk áunninna réttinda kann sjóðfélagi að eiga rétt á örorkulífeyri miðað við framreikning á því hvað ætla má að hefðu orðið réttindi hans við áframhaldandi iðgjaldagreiðslur til 65 ára aldurs. Skilyrði framreikningsréttar eru að sjóðfélaginn hafi:
- greitt iðgjöld til sjóðsins a.m.k. þrjú af undanfarandi fjórum almanaksárum og a.m.k. kr. 157.435 hvert þessara þriggja ára. Hafi sjóðfélagi unnið reglubundið hlutastarf á tímabilinu skal miða við að lágmarksiðgjald hafi verið a.m.k. kr. 104.957. Framangreindar fjárhæðir taka breytingum í samræmi við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar m.v. desember 2023.
- greitt iðgjöld til sjóðsins í a.m.k. sex mánuði á undanfarandi tólf mánuðum.
- orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins.
- ekki sjálfur átt sök á orkutapi vegna ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna.
Skerðingar
Hafi sjóðfélagi skipt um starf og af þeim sökum hafið iðgjaldagreiðslur til sjóðsins á síðustu 24 mánuðum fyrir orkutap, stofnast ekki réttur til framreiknings hjá Festu, ef rekja má starfsskiptin til versnandi heilsufars, sem leitt hafi til orkutapsins.
Við útreikning tekjumissis skal tekið tillit til atvinnutekna örorkulífeyrisþegans, lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum og öðrum lífeyrissjóðum og kjarasamningsbundinna tryggingabóta sem hann nýtur vegna örorkunnar. Í úrskurði um lífeyri skal tilgreina hvaða launatekjur eru lagðar til grundvallar útreikningi, svo sjóðfélaga megi vera ljóst við hvaða mörk lækkun örorkulífeyris vegna tekna er miðað.
Upplýsingagjöf
Sjóðfélaga sem sækir um örorkulífeyri eða nýtur slíks lífeyris, skal afhenda sjóðnum allar þær upplýsingar um heilsufar sitt og atvinnutekjur, sem nauðsynlegar eru til að dæma um rétt hans til lífeyris og ef nauðsynlegt er, gangast undir læknisskoðun hjá trúnaðarlækni sjóðsins. Berist ekki fullnægjandi gögn og upplýsingar frá sjóðfélaga og hann sinnir ekki tilmælum sjóðsins þar að lútandi, er heimilt að fresta, fella niður greiðslur lífeyris eða vísa umsókn frá.
Heimilt er að fengnu áliti trúnaðarlæknis að setja það skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris, að sjóðfélagi fari í endurhæfingu, sem bætt gæti heilsufar hans. Endurmat á orkutapi skal fara fram að lokinni endurhæfingu.
Örorkulífeyrir fellur niður við 67 ára aldur og eins ef starfsorka eykst eða tekjur aukast þannig að skilyrðum um framreikning er ekki lengur fullnægt.
Nánari upplýsingar um örorkulífeyri er að finna í samþykktum sjóðsins
Gott að vita
- Hvenær á ég rétt á örorkulífeyri?
- Get ég átt rétt til örorkulífeyris hjá mörgum lífeyrissjóðum?
- Geta öryrkjar tekið út séreignarsparnað fyrir 60 ára aldur?
- Tapa ég rétti á ævilöngum lífeyri ef ég fer á örorkulífeyri?
- Má ég vinna þó ég sé á örorkulífeyri?
- Hvað ef ég bý erlendis?
- Eru greiðslur örorkulífeyris skattskyldar?