Sjóðfélagi sem verður fyrir orkutapi, sem talið er að svari til 50% örorku eða meira á rétt á örorkulífeyri úr sjóðnum í samræmi við áunnin réttindi skv. 10. gr. og nánari skilmála þessa 11 kafla. Auk áunninna réttinda skv. framanskráðu á sjóðfélagi rétt á örorkulífeyri miðað við framreikning á því, hvað ætla má að hefðu orðið réttindi hans við áframhaldandi iðgjaldsgreiðslur skv. nánari skilmálum þessa kafla. Skilyrði framreikningsréttar eru að sjóðfélaginn hafi:
- greitt iðgjöld til sjóðsins a.m.k. þrjú af undanfarandi fjórum almanaksárum og a.m.k. kr. 60.000 hvert þessara þriggja ára. Hafi sjóðfélagi unnið reglubundið hlutastarf á tímabilinu skal miða við að lágmarksiðgjald hafi verið a.m.k. kr. 40.000.
- greitt iðgjöld til sjóðsins í a.m.k. sex mánuði á undanfarandi tólf mánuðum.
- orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins.
- ekki sjálfur átt sök á orkutapi vegna ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna.
Hafi sjóðfélagi skipt um starf og af þeim sökum hafið iðgjaldsgreiðslur til sjóðsins á síðustu 24 mánuðum fyrir orkutap, stofnast ekki réttur til
framreiknings í þessum sjóði, ef rekja má starfsskiptin til versnandi heilsufars, sem leitt hafi til orkutapsins.
Séu sérstakar ástæður, svo sem aldur sjóðfélaga, búseta hans erlendis eða nám þess valdandi, að hann hefur ekki getað uppfyllt skilyrði gr. 12.1. um iðgjaldsgreiðslutíma er sjóðstjórn heimilt að stytta áskilinn tíma í tvö undanfarandi almanaksár, enda verði talið fullvíst, að orsök örorku verði ekki rakin til tíma aftur fyrir orkutap. Hafi sjóðfélagi hins vegar öðlast rétt til framreiknings sem fallið hefur niður vegna tímabundinnar fjarveru af vinnumarkaði allt að 24 mánuði vegna vinnu erlendis, náms, leyfis frá störfum, barneigna eða sambærilegra ástæðna, skal framreikningsréttur stofnast á nýjan leik eftir sex mánuði frá því að hann hefur aftur störf og greiðslu iðgjalds til sjóðsins.
Réttur til örorkulífeyris stofnast því aðeins að sjóðfélagi hafi orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Aldrei skal samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir skv. gr. 14.4. vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar. Við mat á því hvort tekjuskerðing hafi orðið skal úrskurða sjóðfélaganum viðmiðunartekjur, sem skulu vera meðaltal tekna sjóðfélaga síðustu fjögur almanaksár fyrir orkutapið, sbr. a) lið gr. 12.6. um framreikning. Heimilt er að miða við meðaltal tekna síðustu 3 almanaksárin fyrir orkutapið vegna sjóðfélaga sem fengið hefur úrskurðaðan örorkulífeyri fyrir 1. janúar 2006 sbr. einnig a) lið gr. 12.6. Frá úrskurðardegi skulu viðmiðunartekjurnar taka þeim breytingum sem verða á launavísitölu. Við útreikning tekjumissis skal tekið tillit til atvinnutekna örorkulífeyrisþegans, lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum og öðrum lífeyrissjóðum og kjarasamningsbundinna tryggingabóta sem hann nýtur vegna örorkunnar. Í úrskurði um lífeyri skal greina hvaða launatekjur eru lagðar til grundvallar útreikningi, svo sjóðfélaga megi vera ljóst við hvaða mörk lækkun örorkulífeyris vegna tekna er miðað. Örorkulífeyrisþega er skylt að veita sjóðnum upplýsingar um tekjur sínar skv. launaframtali, sé þess óskað. Heimilt er að fresta eða fella niður greiðslur lífeyris, veiti sjóðfélagi ekki umbeðnar upp lýsingar.
Hundraðshluta orkutaps og tímasetningu þess skal ákvarða á grundvelli örorkumats trúnaðarlæknis sjóðsins samkvæmt reglum um læknisfræðilegt örorkumat og að fengnum upplýsingum um heilsufarssögu og starfsorku sjóðfélaga aftur í tímann. Mat á missi starfsorku skal miðast við þær heilsufarslegu breytingar sem sjóðfélagi hefur orðið fyrir eftir að hann hóf iðgjaldsgreiðslur til sjóðsins. Fyrstu þrjú árin eftir orkutapið skal örorkumat aðallega miðað við vanhæfni sjóðfélaga til að gegna því starfi er hann hefur gegnt og aðild hans að sjóðnum er tengd. Að því tímabili loknu skal orkutap metið á ný með tilliti til vanhæfni sjóðfélaga til almennra starfa, nýrra upplýsinga um heilsufar og störf og árangurs af endurhæfingu. Orkutap skal síðan endurmetið eftir því sem stjórn sjóðsins telur ástæðu til.
Þegar skilyrði 12.1. um iðgjaldagreiðslutíma eru uppfyllt miðast hámark örorkulífeyris við áunninn lífeyrisrétt samkvæmt 10. gr. að viðbættum lífeyri sem svarar til þeirra réttinda sem ætla má að sjóðfélaginn hefði áunnið sér með iðgjaldsgreiðslum fram til 65 ára aldurs, reiknað samkvæmt grein 12.6. Eigi sjóðfélaginn jafn
framt rétt á örorkulífeyri úr öðrum sjóði skal hann því aðeins fá lífeyri úr þessum sjóði vegna ókomins tíma, að hann hafi síðast greitt iðgjöld til þessa sjóðs sbr. þó ákvæði samkomulags um samskipti lífeyrissjóða.
Eigi sjóðfélagi, sem ekki hefur náð 65 ára aldri er hann verður fyrir orkutapi, rétt á framreikningi réttinda samkvæmt gr. 12.5., skal um
þann framreikning fara sem hér segir:
- reikna skal meðaltal iðgjalda sjóðfélaga næstu fjögur almanaksárin fyrir orkutapið. Telji sjóðstjórn rökstudda ástæðu til að ætla að þetta fjögurra ára meðaltal endurspegli ekki venjubundnar greiðslur, er henni heimilt að leggja til grundvallar iðgjaldsgreiðslur 8 ár aftur í tímann. Við útreikning meðaliðgjalds þessa tímabils skal hvorki taka tillit til þess árs sem lægst iðgjöld bárust vegna sjóðfélaga né þess árs sem iðgjaldsgreiðslur voru 12 hæstar og reikna meðaliðgjaldið því af iðgjöldum þeirra 6 ára sem þá standa eftir. Hafi sjóðfélaginn greitt iðgjöld í skemmri tíma en 8 ár skal reikna út frá viðkomandi árafjölda. Lífeyrisréttur sjóðfélaga vegna framreiknings ákvarðast jafn þeim réttindum, sem þetta meðaliðgjald, greitt til 65 ára aldurs, myndi hafa veitt honum skv. töflu I í viðauka A. Nemi meðaliðgjaldið hærri fjárhæð en kr. 160.000 skal við framreikning miða við meðaltalið í allt að 10 ár en síðan og til 65 ára aldurs skal í stað meðaltalsins reikna með kr. 160.000 að viðbættum helmingi þess iðgjalds sem umfram er.
- Hafi sjóðfélagi fyrir orkutapið látið af því starfi sem iðgjöld hans byggðu á, þannig að tekjusaga fortíðar þyki að mati sjóðstjórnar ekki gefa trúverðuga vísbendingu um tekjutap hans í framtíðinni, er sjóðstjórn heimilt að leggja til grundvallar mati á tekjutapi skv. gr. 12.5. áætlaðar framtíðartekjur umsækjanda í nýju starfi að hálfu leyti á móti útreikningi skv. a. lið, sem hafi þá 50% vægi við útreikning á tekjuviðmiði til framreiknings.
- Nú hafa iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga til lífeyrissjóða verið svo stopular, að þær hafa fallið niður eða verið innan við kr. 42.000 fleiri en eitt almanaksár eftir lok þess árs, er sjóðfélagi náði 25 ára aldri og skal þá framreikningstími styttur í hlutfallinu milli fjölda almanaksára, sem árlegar iðgjaldsgreiðslur hafa verið undir kr. 42.000 og fjölda almanaksára frá 25 ára aldri fram til orkutaps.
Örorkulífeyrir er sami hundraðshluti af hámarksörorkulífeyri og orkutapið er metið.
Örorkulífeyrir greiðist ekki fyrir fyrstu þrjá mánuðina eftir orkutap. Ekki er greiddur örorkulífeyrir ef orkutap hefur varað skemur en í sex mánuði.
Skylt er öryrkja sem sækir um örorkulífeyri úr sjóðnum eða nýtur slíks lífeyris að láta stjórn sjóðsins í té allar þær upplýsingar um heilsufar sitt og atvinnutekjur, sem nauðsynlegar eru til að dæma um rétt hans til lífeyris og ef nauðsynlegt er, gangast undir læknisskoðun hjá trúnaðarlækni sjóðsins. Berist ekki fullnægjandi gögn og upplýsingar frá sjóðfélaga og hann sinnir ekki tilmælum sjóðsins þar að lútandi skal umsókn hans vísað frá. Heimilt er að fengnu áliti trúnaðarlæknis að setja það skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris, að sjóðfélagi fari í endurhæfingu, sem bætt gæti heilsufar hans. Endurmat á orkutapi skal fara fram að lokinni endurhæfingu.
Stjórn sjóðsins skal lækka eða fella niður örorkulífeyri þeirra öryrkja sem fá starfsorku sína aftur að nokkru eða öllu leyti. Sömuleiðis ber henni að hækka örorkulífeyrinn, ef örorkan vex til muna og án sjálfskaparvíta frá því sem hún var metin við fyrri ákvarðanir, enda hafi sjóðfélaginn á þeim tíma er örorkan óx ekki verið í starfi er veitti honum lífeyrisréttindi í öðrum lífeyrissjóði.
Örorkulífeyrir fellur niður við 67 ára aldur og eins ef starfsorka eykst eða tekjur aukast þannig að skilyrðum gr. 12.1. er ekki lengur fullnægt. Áunnin réttindi örorkulífeyrisþega skulu hverju sinni nema áunnum réttindum við fyrsta úrskurð örorku að viðbættum réttindum vegna:
- framreiknaðra réttinda í hlutfalli við hundraðshluta örorkulífeyris af hámarksörorkulífeyri eins og hann hefur verið hverju sinni.
- aukningar- eða skerðingarréttinda sem kann að hafa verið úthlutað eftir að taka örorkulífeyris hófst.
- réttinda sem örorkulífeyrisþeginn kann að hafa unnið sér inn eftir úrskurð örorku.
Til frádráttar ellilífeyri sjóðfélaga, þannig reiknuðum, skal síðan koma sá ellilífeyrir, sem hann hefur afsalað sér samkvæmt grein 11.7. (skipting ellilífeyrisréttinda).